Tékkneskar fjölskyldur hafa löngum stundað baðstrendur Króatíu í sumarleyfunum sínum. Hefð er fyrir því að fylla fjölskyldubílinn af vistum og gista á ódýrum gistiheimilum en nú hafa Króatísk yfirvöld verið sökuð um að sporna við þessari hefð með því að banna innflutning á kjöti og mjólkurvörum frá öllum löndum ESB.
Í grein í breska blaðinu The Guardian er fjallað um óánægju króatískra veitingamanna og verslunareigenda sem kvarta undan því að tékkneskir ferðamenn skilji ekki neina fjármuni eftir í landinu.
Króatía sem enn hefur ekki orðið að fullgildum meðlimi í ESB segist vera að bregðast við svipaðri fyrirskipan frá Brussel sem bannar Króötum að fara með mjólkurvörur og kjöt inn í nágrannaríkið Slóveníu sem er í ESB.
Tékkneskir ferðamenn hafa brugðist reiðilega við með því að afpanta gistingu og ferðir til Króatíu. 10% af 900 þúsund ferðamönnum frá Bæhæmi og Móravíu í Tékklandi eða um tíundi hluti af tékknesku þjóðinni hafa afboðað sumarfríi í Króatíu og halda þess í stað til meðal annars Ítalíu.
„Þetta er ekkert annað en beinskeytt árás á þjóðarhefð vora," segir í tékkneska dagblaðinu Hospodárske Noviny um málið.
Í Pravo, vinstri sinnuðu dagblaði segir að þetta sé hneyksli og tekið fram að Króatar kjósi frekar ríka þýska og austurríska ferðamenn og líti niður á óæskilega annars flokks tékkneska ferðamenn.
Samtök tékkneskra ferðamanna segja að nýju lögin taki ekki með í reikninginn að tékknesku sumarfríi verði ekki notið til fulls nema því fylgi heimalagaður matur á borð við súrsaðar pylsur, reyktur eða steiktur ostur og steikt svínakjöt.