Réttarhöld yfir fimm mönnum sem ákærðir eru fyrir að hafa skipulagt árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001 hefjast fyrir herrétti í fangabúðum Bandaríkjastjórnar við Guantanamó flóa á Kúbu í dag.
Talið er að Khaled Sheikh Mohammed, hafi verið hugsuðurinn á bak við árásirnar en auk hans eru Ramzi Binalshibh, Ali Abd al-Aziz Ali, Wallid bin Attash og Mustapha al-Hawsawi ákærðir í málinu. Ef þeir verða fundnir sekir eiga þeir allir yfir höfði sér dauðadóm.
Búið er að koma upp tjaldbúðum í nágrenni fangabúðanna fyrir fjölmiðlamenn og aðra sem eru komnir til Kúbu til þess að fylgjast með réttarhöldunum. En alls fá 60 fréttamenn að fylgjast með réttarhöldunum.
Fimmmenningarnir, sem voru handteknir á árunum 2002 og 2003, eru meðal annars ákærðir fyrir samsæri, morð, árásir á óbreytta borgara, að hafa valdið alvarlegu líkamstjóni, eyðileggingu eigna og hryðjuverk.
Þeir neita allir sök en þeir hafa dvalið í fangabúðunum frá árinu 2006. Þaðan komu þeir úr leynifangelsum CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, samkvæmt heimildum AP og AFP.