Írakar og Íranir ræða öryggismál

Nouri Maliki, forsætisráðherra Íraks, segir að írösk yfirvöld muni ekki heimila að landsvæði Íraka verði notað til þess að ráðast inn í Íran.  Maliki sagði þetta eftir að hafa fundað með Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Íran og Mahmoud Ahmadinejad, forseta Íran, í Teheran, höfuðborg Íran í dag.

Á fréttavef BBC kemur fram að yfirvöld í Íran hafi lýst yfir andstöðu sinni við samningaviðræður Bandaríkjamanna og Íraka um framtíð bandaríska hersins í Írak.  Í þeim viðræðum hefur áframhaldandi dvöl bandaríska hersins í landinu verið til umræðu, en umboð þeirra frá SÞ rennur út í lok ársins 2008.

Án þess að vísa í samningaviðræður Bandaríkjamanna og Íraka, sagði Ahmadinejad að Írak þurfi á frekari stöðugleika að halda til þess að verjast áhrifum frá öðrum löndum.  Þá sagði hann nágrannaríki Íraks, vera ábyrg fyrir því að aðstoða við að koma á friði og öryggi í landinu. 

Forsætisráðherra Íraks Nuri al-Maliki tekur í hönd forseta Írans, Mahmoud …
Forsætisráðherra Íraks Nuri al-Maliki tekur í hönd forseta Írans, Mahmoud Ahmadinejad í opinberri heimsókn í Teheran, höfuðborg Írans í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert