Að minnsta kosti sjö manns létu lífið í Tókýó í morgun eftir að 25 ára gamall karlmaður gekk berserksgang í borginni og réðist að vegfarendum með hníf í Akihabara hverfi borgarinnar. Árásarmaðurinn,Tomohiro Kato, keyrði 2 tonna vörubíl inn á göngugötu og stökk síðan öskrandi út úr bílnum. Talsmaður lögreglu í Tókýó segir Kato hafa sagt lögreglu að hann hafi komið til Akihabara til þess að drepa fólk og að hann væri orðinn leiður á lífinu.
Í fyrstu var talið að maðurinn væri meðlimur glæpagengis en að sögn fréttastofunnar NHK reyndist svo ekki vera. Tólf manns særðust í árásinni og voru 17 sjúkrabílar sendir á staðinn. Akihabara hverfið er ávallt mannmargt en þar er mikið af raftækjaverslunum.
Hnífaárásum sem þessari hefur fjölgað í Japan á undanförnum árum en árið 2001 átti ein versta árásin sér stað þegar geðveill maður réðist inn í barnaskóla og drap 8 skólabörn með hnífi.