Drög að samkomulagi í Súdan

Mbl/Þorkell Þorkelsson

Leiðtogar andstæðra fylkinga í Súdan hafa undirritað vegvísi til að koma í veg fyrir átök um hið olíuríka Abyei hérað. Er þetta í fyrsta sinn sem þeir samþykkja alþjóðlega sáttatilraunir vegna landamæra.

Omar al-Bashir, forseti Súdan, og Salva Kiir, aðal-varaforseti Súdan, undirrituðu samkomulagið á sunnudag en al-Bashir er leiðtogi norður Súdan og Kiir suður Súdan.

Nýja áætlunin gerir meðal annars ráð fyrir bráðabirgðastjórn fyrir héraðið og að fólk sem flúið hefur svæðið vegna átaka komi til baka. Fylkingarnar tvær komu sér sömuleiðis saman um bráðabirgða landamæri sem þær munu virða þar til endanleg landamæri verða ákveðin.

Tugþúsundir manna flýðu heimili sín í héraðinu í síðasta mánuði vegna átaka milli herafla norðurs og suðurs. Vakti það ugg um að borgarastyrjöld væri að blossa aftur upp í Súdan sem er stærsta ríki álfunnar.

Abyei hefur verið aðal ásteitingarsteinn stjórnarinnar í Khartoum í norðri og Frelsisflokks Súdan, SPLM, í suðri allt frá því að fylkingarnar undirrituðu friðarsamkomulag 2005. Batt það enda á borgarastyrjöld sem hafði logað í tvo áratugi vegna ágreinings um trú, kynþætti og hugmyndafræði.

Fréttamaður Al Jazeera sagði fylkingarnar hafa gert sér ljóst að þær yrðu að koma sér saman um Abyei hérað. Hætta hefði verið á því að allt spryngi í loft upp og upplausn og óöld ríkt á ný í Súdan.

Miklir hagsmunir eru í húfi í héraðinu en stór hluti olíulinda landsins er þar að finna. Aðalbærinn er umkringdur olíulindum og liggja olíuleiðslurnar í gegnum héraðið. Sagði Salva Kiir að  auðlindirnar yrðu notaðar til að bæta lífsgæðin við landamæri norðurs og suðurs.

Herlið norðurs og suðurs sem eru í biðstöðu á svæðinu munu víkja fyrir sameinuðu herliði norðurs og suðurs.

Fylkingarnar munu einnig veita Sameinuðu Þjóðunum aðgang að héraðinu í því skyni að aðstoða flóttafólk að komast aftur til síns heima, í síðasta lagi fyrir 30. júní.

Gert er ráð fyrir að það geti tekið níu mánuði að komast að lokasamkomulagi. Ef fylkingunum tveimur tekst ekki að koma sér saman um alþjóðlegan sáttasemjara munu þær leita til Alþjóðasáttadómstólsins í Haag sem mun koma með tillögu að sáttasemjara. Flest bendir til að þetta verði nauðsynlegt.

Abyei hérað mun kjósa um það 2011 hvort það vill tilheyra norðri eða suðri, á sama tíma og suðurhlutinn mun kjósa um næsta leiðtoga.

Þetta kemur fram á fréttavef Al Jazeera. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert