Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa lýst því yfir að „ofbeldisherferð yfirvalda í Zimbabve” hafi gert það að verkum að ómögulegt sé að frjálsar og óháðar kosningar fari fram í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samtökin, sem hafa höfuðstöðvar í New York, segjast einnig hafa undir höndum sterkar vísbendingar um að embættismenn á vegum Roberts Mugabe, forseta landsins, hafi staðið á bak við þá ofbeldisherferð sem fram hafi farið gegn forsvarsmönnum og yfirlýstum stuðningsmönnum stjórnarandstöðunnar í landinu.
Í nýrri skýrslu samtakanna að ofbeldisverkum gegn samherjum og stuðningsmönnum Morgan Tsvangirai, forsetaframbjóðanda stjórnarandstöðunnar í landinu hafi fjölgað mjög eftir að ákveðið var að efna til annarrar umferðar forsetakosninga á milli þeirra þann 27. júní.
„Íbúar Zimbabve hafa ekki frelsi til að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni eigi þeir á hættu að það kosti þá lífið,” segir Georgette Gagnon, yfirmaður Afríkudeildar Human Rights Watch. Í skýrslunni er m.a. greint frá staðhæfingum þess efnis að Zanu-PF flokkur Mugabe hafi rekið pyntingarbúðir og fjallað um 36 dauðsföll, sem rakin eru til pólitísks ofbeldis. Þá eru sjötíu fórnarlömb og vitni að slíkum ofbeldisverkum nefnd með nafni.
Tsvangirai og nokkrir samstarfsmenn hans voru handteknir tímabundið í síðustu viku. Þá var bann lagt við fjöldafundum stjórnmálaflokks hans MDC en hæstiréttur landsins úrskurðaði bannið síðan ólögmætt.