Eldsneyti að klárast á spænskum bensínstöðvum

Langar biðraðir hafa myndast við landamæri Spánar og Frakklands vegna …
Langar biðraðir hafa myndast við landamæri Spánar og Frakklands vegna verkfalls flutningabílstjóra Reuters

Sífellt fleiri bensínstöðvar á Spáni eru að verða uppiskroppa með eldsneyti vegna verkfalls vöruflutningabílstjóra sem mótmæla hækkun á eldsneytisverði. Bílstjórar hafa lokað einhverjum þjóðvegum á Spáni og vegna ótta almennings við eldsneytisskort hefur fólk þust á bensínstöðvar til að fylla á bíla sína. Talið er að um 90 þúsund flutningabílstjórar taki þátt í verkfallinu á Spáni.

Samband flutningabílstjóra á Spáni fer fram á aðgerðir stjórnvalda en líter af díselolíu hefur hækkað um 20% það sem af er ári á Spáni. Forsætisráðherra Spánar, Jose Luis Rodriguez Zapatero, hefur boðið bílstjórum upp á aðstoð fjárhagslega en segir að það komi ekki til greina að breyta álögum á eldsneyti þar sem þeir verði að sætta sig við eðlilega samkeppni, samkvæmt frétt BBC.  

Langar biðraðir hafa myndast Frakklandsmegin við landamæri Spánar þar sem spænsku bílstjórarnir koma í veg fyrir að franskir vöruflutningabílar fái að koma inn í landið.  Í kringum Barcelona og Madrid hreyfist umferðin á hraða snigilsins þar sem atvinnubílstjórar fara sér að engu óðslega í umferðinni og svipað er uppi á teningnum í Baskalandi, Valencia og í Bordeaux-héraði í Frakklandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert