Mótmæli gegn eldsneytisverði færast í aukana

Mótmæli flutningabílstjóra á Spáni, í Frakklandi og Portúgal gegn háu eldsneytisverði hafa færst í aukana í morgun og hafa tugir þúsunda bílstjóra bæst í hóp þeirra, sem lagt hafa niður vinnu. Einnig hafa starfsmenn járnbrauta í Frakklandi gripið til aðgerða. Þá hafa bílstjórar í Hong Kong og á Indlandi einnig skipulagt mótmæli.

Stjórnvöld á norðurhluta Spánar gripu í morgun til neyðarráðstafana eftir að bensín kláraðist á bensínstöðvum í Katalóníu. Lögregla fylgdi tankbílum til Barcelona svo hægt væri að fylla á tanka stöðvanna.

Flutningar á matvælum til Madridar hafa nánast stöðvast, að sögn starfsmanna Mercamadrid markaðarins, stærsta heildsölumarkaðar Spánar. Þá er einnig útlit fyrir vöruskort í Barcelona.

Spænskir og franskir vörubílstjórar stóðu fyrir aðgerðum við landamæri ríkjanna tveggja. Hafa miklar bílaraðir myndast á svæðunum og víðar í löndunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka