Þrjú stærstu netþjónustufyrirtæki Bandaríkjanna hafa samþykkt að loka fyrir aðgang að vefsíðum og tilkynningasíðum sem innihalda barnaklám. Fyrirtækin, Verizon, Sprint, og Time Warner Cable, munu einnig ráðstafa meira en einni milljón dala til þess að reyna að fjarlægja barnaklámssíður af netþjónum sínum, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Áður hafa tilraunir til þess að herja á slíkar síður mætt andstöðu frá netþjónustufyrirtækjum, sem hingað til hafa haldið því fram að þau geti ekki talist ábyrg fyrir því hvað einstaklingar senda sín á milli á netinu. Þar af leiðandi hafa lögregluyfirvöld reynt að einbeita sér að framleiðendum barnakláms fremur en netþjónustufyrirtækjum.
Andrew Cuomo, saksóknari í New York ríki, náði aftur á móti samningi við fyrirtækin eftir að starfsmenn hans höfðu unnið átta mánaða rannsóknarvinnu vegna málsins. Starfsmenn settu sig í gervi neytenda, og herjuðu á netþjónustufyrirtækin fyrir að leyfa birtingar á vafasömum myndum, þrátt fyrir heit í skilmálum notendasamninga um að berjast gegn slíku.
Hótaði saksóknari fyrirtækjunum lögsókn fyrir svik og vafasama viðskiptahætti. Til þess að forðast lögsókn samþykktu fyrirtækin skilmála Cuomos.