Morgan Tsvangirai, forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, lýsti því yfir í dag að í raun sé herforningjastjórn í landinu. Sagði hann að stjórnarandstaðan muni ekki viðurkenna lögmæti stjórnar Roberts Mugabes, forseta, ef hann lýsi yfir sigri í forsetakosningum í júnílok.
„Ef Mugabe lýsir yfir sigri mun hann staðfesta, að stjórnin situr með ólöglegum hætti," sagði Tsvangirai á blaðamannafundi í Harare, höfuðborg landsins.
Þá segir hann að 66 stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar í landinu hafi verið felldir í ofbeldisaðgerðum yfirvalda frá því fyrri umferð forsetakosninganna fór fram í lok mars en önnur umferð kosninganna á að fara fram 27. júní.
Stuðningsmenn Tsvangirais segja hann hafa hlotið hreinan meirihluta í fyrri umferð forsetakosninganna. Yfirvöld í landinu bera ekki á móti því að hann hafi hlotið fleiri atkvæði en Mugabe en segja forskot hans ekki hafa verið nægjanlegt til að tryggja honum bindandi kosningu.