Versti Bandaríkjaforsetinn

Reuters

George W. Bush er versti Bandaríkjaforseti sögunnar, að mati norsks sérfræðings í bandarískum stjórnmálum. Hann telur aftur á móti að flokksbróðir Bush, Abraham Lincoln, hafi verið besti forsetinn.

Prófessor Ole O. Moen, sem hefur fylgst með bandarískum stjórnmálum mestallan sinn fræðimannsferil, hefur nýlega sent frá sér bók um alla forseta Bandaríkjanna.

Aftenposten innti Moen eftir því hverja hann teldi vera fimm bestu Bandaríkjaforsetana, og hverja vera fimm verstu.

Bush yngri lenti á botninum, og Moen segir að ríkisstjórn hans einkennast af „hættulegri blöndu af hroka og fáfræði.“ Bush hafi sýnt að hann skorti hæfileika til samstarfs við aðra þjóðarleiðtoga og bandaríska þingið.

Moen nefnir ennfremur innrásina í Írak og meintar vísbendingar um gereyðingarvopnaeign Íraka, sem Bush notaði sem átyllu fyrir innrásinni en reyndust síðan úr lausu lofti gripnar. Ennfremur hafi Bush virt að vettugi viðhorf alþjóðasamfélagsins í ýmsum málum, eins og til dæmis Kyoto. Þá hafi skattastefna hans aukið bilið á milli ríkra og fátækra í Bandaríkjunum.

Næst-versti forsetinn, að mati Moens, var James Buchanan, sem sat á árunum 1857-1861, og er oft nefndur faðir borgarastríðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert