Lögreglan í Lundúnum rannsakar nú hvernig á því stóð að leyniskjöl úr stjórnarskrifstofum fundust í lest í borginni. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC er í skjölunum fjallað um hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og þar er m.a. að finna nýjustu upplýsingar breskra stjórnvalda um samtökin.
Að sögn BBC tilheyrðu skjölin afar háttsettum leyniþjónustumanni, sem starfar í breska forsætisráðuneytinu. Farþegi í lest á leið frá Waterloo lestarstöðinni í Lundúnum til Surrey sá kassa, sem innihélt skjölin, í sæti í lestinni og afhenti BBC þau.
Skjölin eru stimpluð leyniskjöl og þar segir að þau megi aðeins koma fyrir augu stjórnvalda í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Auk upplýsinga frá leyniþjónustu um al-Qeada er í skjölunum lagt mat á stöðu öryggissveita Íraksstjórnar.
BBC segir, að mikið uppnám hafi orðið í breskum stjórnarskrifstofum þegar í ljós kom að farið hafi verið með umrædd leyniskjöl út úr húsi og inn í lest.