Fyrrum konungur Nepals yfirgefur konungshöllina

Fyrrum konungur Nepals Gyanendra og drottning Komal yfirgáfu Narayanhiti konungshöllina …
Fyrrum konungur Nepals Gyanendra og drottning Komal yfirgáfu Narayanhiti konungshöllina í Katmandu fyrir fullt og allt í dag. Reuters

Gyanedra, fyrrum konungur Nepals, hefur yfirgefið konungshöllina í Katmandu, höfuðborg landsins, þar sem fjölskylda hans bjó í meira en öld.  Gyanedra var steypt af stóli eftir að maóistar unni sigur í þingkosningum í apríl.   Þá var ákveðið að afnema konungsveldið í landinu, og verður höllinni, sem er staðsett í miðri Katmandu, breytt í safn.   

Fjöldi lögreglumanna stóð vörð um aðalhlið hallarinnar þegar Gyanedra og kona hans Komal keyrðu á brott í lögreglufylgd, en þau munu flytja tímabundið til Nagarjun, fyrir utan borgina.

Að sögn fréttaskýrenda voru flestir áhorfendur ánægðir með að sjá konunginn yfirgefa höllina fyrir fullt og allt.  Líta margir Nepalbúar svo á að afnemun konungsveldisins marki nýtt upphaf í sögu Nepals, að því er fram kemur á fréttavef BBC.  
  
Gyanedra tók sér alræðisvald árið 2005 í því skyni að binda endi á uppreisn maóista sem hafði staðið yfir í tíu ár og kostað um 13.000 manns lífið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert