Írar kjósa á morgun um Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins – sem ætlað er að umbreyta sambandinu og mynda stjórnskipulegan ramma utan um starfsemi þess.
Landið er hið eina sem ber sáttmálann undir þjóðaratkvæði, en þjóðþing hinna aðildarríkjanna 26 hafa þegar samþykkt sáttmálann. Þar sem hvert ríki hefur neitunarvald um framgang sáttmálans getur írska þjóðin gert út af við Lissabon-sáttmálann.
Þrjú ár eru síðan Frakkland og Holland höfnuðu stjórnarskrá ESB, en Lissabon-sáttmálinn mun fylla í það skarð sem stjórnarskránni var ætlað. Erfiðar samningaviðræður á milli aðildarríkjanna liggja að baki sáttmálanum, þannig að lítill vilji er hjá stjórnmálamönnum Evrópu að setjast í þriðja sinn að samningaborðinu.