Bandarískar konur, sem studdu Hillary Clinton í baráttunni um útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, virðast nú fylkja sér um Barack Obama, sem hefur tryggt sér útnefninguna. Samkvæmt nýrri Gallupkönnun nýtur Obama mun meira fylgis meðal kvenna en John McCain, frambjóðandi repúblikana.
Í könnun, sem gerð var 5.-9. júní, naut Obama fylgis 51% kvenna en McCain 38%. Viku fyrr voru þessar tölur 48-43% Obama í vil.
Fyrri kannanir sýndu, að Clinton naut stuðnings 52% kvenna og McCain 38%. Segir Gallup, að greinilegt sé að eldri og giftar konur, sem studdu Clinton hafi nú ákveðið að styðja Obama úr því Clinton er úr leik.