Samkvæmt niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi í gær höfnuðu 53,4% þátttakenda Lissabonsamningnum svonefnda, sem átti að koma í stað stjórnarskrár Evrópusambandsins. 46,6% vildu samþykkja sáttmálann. Frönsk og þýsk stjórnvöld harma niðurstöðuna í sameiginlegri yfirlýsingu.
Írland var eina aðildarríki ESB þar sem samningurinn var lagður undir þjóðaratkvæði. Niðurstaðan þar þýðir, að samningurinn nær ekki fram að ganga.
Haldinn verður leiðtogafundur Evrópusambandsins í næstu viku þar sem rætt verður hvernig bregðast eigi við. Lissabonsáttmálanum var ætlað að gera stjórnkerfi ESB skilvirkara en þar var m.a. gert ráð fyrir sérstökum forseta sambandsins.