Fleiri flugfélög í Bandaríkjunum bættust í gær í hóp þeirra sem innheimta sérstakt gjald fyrir allar töskur sem settar eru í farangur, en stærsta flugfélagið þar í landi, American, var þegar farið að taka slíkt farangursgjald. Flest eða öll bandarísk flugfélög innheimta gjald séu tvær ferðatöskur settar í farangur.
United Airlines, sem er næst stærsta flugfélagið í Bandaríkjunum, og US Airways, tilkynntu í gær að gjald fyrir eina tösku í farangri yrði 15 dollarar, eða sem svarar tæpum 1.200 krónum. Flest flugfélög innheimta 25 dollara (2.000 kr) séu tvær töskur settar í farangur.
Mikil hækkun eldsneytisverðs hefur leitt til þess að bandarísk flugfélög innheimta nú sérstök gjöld fyrir allskonar þjónustu, auk þess að hafa hækkað fargjöld.