Dermot Ahern, dómsmálaráðherra Írlands, segir að tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslu í gær sýni, að Írar hafi hafnað Lissabonsáttmála Evrópusambandsins.
Ahern segist byggja þessa niðurstöðu sína á tölum frá 43 kjördæmum landsins en í þeim flestum eru nei-atkvæði mun fleiri en já-atkvæði.
Þessi niðurstaða er mikið áfall fyrir Evrópusambandið en öll aðildarríkin 27 verða að samþykkja sáttmálann eigi hann að taka gildi. Írar eru eina þjóðin sem fjallar um sáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Lissabonsáttmálinn á að koma í stað nýrrar stjórnarskrár ESB, sem Frakkar og Hollendingar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2005. Flestir helstu stjórnmálaflokkar Íra, nema Sinn Féin, studdu sáttmálann en almenningur sagðist ekki skilja hann. Andstæðingar sáttmálans sögðu að hann ógnaði ýmsum írskum gildum, svo sem banni við fóstureyðingum, lágum fyrirtækjasköttum og hlutleysi í utanríkismálum.
Þær raddir heyrðust af meginlandi Evrópu, að það væri einkennilegt ef Írar felldu samninginn þar sem efnahagsuppsveifla landsins um aldamótin hefði að huta stafað af því að þeir fengu aðgang að sjóðum ESB.