Stuðningsmenn Mugabe vilja berjast

Stuðningsmenn Morgan Tsvangirai fagna komu hans til landsins á sunnudag …
Stuðningsmenn Morgan Tsvangirai fagna komu hans til landsins á sunnudag en hann hafði þá verið í nokkurra mánaða sjálfskipaðri útlegð þar sem hann óttaðist um örygggi sitt. AP

Robert Mugabe, forseti Zimbabve hefur varað landa sína við því að uppgjafahermenn sem börðust fyrir sjálfstæði landsins frá Bretum á síðari helmingi síðustu aldar séu reiðubúnir til að berjast gegn því að stjórnarandstöðuflokkurinn MDC komist til valda í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Önnur umferð forsetakosninga þar sem kosið verður á milli Mugabe og Morgan Tsvangirai, forsetaefnis MDC, á að fara fram þann 27. júní.   

Haft er eftir Mugabe í ríkisrekna blaðinu Herald að hermennirnir hafi beðið um leyfi til að grípa til vopna en að hann hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir slíku.Segir hann það vera afstöðu hermannanna að Zimbabvebúar hafi öðlast sjálfstæði sitt með byssustingjum og að þeir eigi ekki að gefa það eftir með pennastriki.

„Á fólk bara að skrifa eitt X og láta landið þannig af hendi?” segir hann. Mugabe, sem er 84 ára hefur verið forseti landsins frá því það hlaut sjálfstæði árið 1980. Hann lýsti því yfir fyrir fyrri umferð forsetakosninganna að Tsvangirai muni ekki komast til valda í landinu á meðan hann sé enn á lífi. Tsvangirai hlaut fleiri atkvæði en Mugabe í fyrri umferð kosninganna en kjörstjórn segir muninn á atkvæðum þeirra ekki hafa verið nægilegan til að tryggja honum bindandi kosningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert