Sádi Arabar sagðir ætla að auka framleiðslu

Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádi-Arabíu, er sagður ætla að tjá sig á morgun um fréttir þess efnis að Sádi Arabar hafi ákveðið að auka olíuframleiðslu sína til að reyna að stemma stigu við hækkun olíuverðs á heimsmarkaði og áhrifum hennar á hagkerfi heimsins.

Samkvæmt fréttum The New York Times og Middle East Economic Survey,hafa yfirvöld í Sádi Arabíu sem er mesta olíuframleiðsluríki heims, ákveðið að auka framleiðslu sína um 500.000 tunnur dag. Framleiðsla þeirra yrði þá 10 milljón tunnur á dag en hún hefur aldrei fyrr verið svo mikil.

Ibrahim al-Muhanna, ráðgjafi ráðherrans segir í viðtali við fréttastofuna The Associated Press að hann geti ekki staðfest að þetta hafi verið ákveðið en að ráðherrann muni skýra málið á morgun.

Sádi-Arabar hafa boðað til fundar nokkurra helstu olíuframleiðsluríkja heims þann 22. júní. Eru þeir sagðir óttast að lækki olíuverð ekki á næstunni muni það ýta undir þróun tækni sem nýtir aðra orkugjafa en olíu og draga þannig úr verðmæti olíuauðs þeirra. 

Forsvarsmenn OPEC ríkjanna hafa fram til þessa ekki viljað fallast á að lækka olíuverð og segja slíkt ekki koma til umræðu fyrr en á næsta ráðherrafundi samtakanna sem haldinn verður í Vínarborg þann 9. september. Segja forsvarsmenn samtakanna að ekki sé hægt að rekja olíuverðshækkanir til misræmis á milli framboðs og eftirspurnar og að því sé  tilgangslaust að auka framboð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert