Að minnsta kosti þrír létu lífið og yfir hundrað slösuðust er jarðskjálfti sem mældist 7,2 á Richter reið yfir norðurhluta Honshueyjar í Japan í morgun. Skjálftinn olli skriðuföllum en ekki var gefin út flóðbylgjuviðvörun vegna hans.
Lestarsamgöngur liggja nú niðri á svæðinu og brú hrundi. Þá loka skriður víða vegum.
Staðfest hefur verið að 84 séu slasaðir eftir skjálftann en Kyodo fréttastofan segir að slasaðir séu a.m.k. hundrað. Þá eru hundrað manns innilokaðir á heilsuslindasvæði en ekki hafa borist frekari fréttir af ástandi þeirra.
Einn hinna látnu varð fyrir bíl er hann hljóp út úr húsi sínu. Annar varð undir aurskriðu þar sem hann var við stangveiði og sá þriðji varð fyrir grjóthruni þar sem hann var við vinnu við stíflugerð. 17 farþegar í rútu slösuðust þegar hún lenti út í tjörn vegna skriðu, sem féll á hana. Þá slösuðust fimm börn þegar gler brotnaði í gluggum dagheimilis.
Tvö kjarnorkuver er á svæðinu og hafa aðstæður þar verið kannaðar. Ekkert bendir til annars en að þau starfi eðlilega. Geislavirkt vatn lak út úr einu þeirra en ekki er talið að það hafi valdið umtalsverðri hættu. Rafmagnslaust er hins vegar á 29.000 heimilum á svæðinu. Skjálftinn fannst vel í Tókýó, höfuðborg Japans, sem er í 390 km fjarlægð frá skjálftasvæðinu.