Í annað skipti á nokkrum dögum hafa bresk leyniskjöl fundist í lestarsæti. Í gær fannst skjalamappa í sæti lestar, sem var á leið til Lundúna. Skjölin fjölluðu m.a. um aðgerðir breskra stjórnvalda til að berjast gegn fjármögnun hryðjuverkamanna, fíkniefnasölu og peningaþvætti.
Sá sem skjölin fann afhenti þau blaðinu Independent on Sunday, sem hefur nú skilað þeim en birtir um þetta frétt í dag.
Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins segir að þar hafi menn miklar áhyggjur af málinu og verið sé að gera ráðstafanir til að svona lagað endurtaki sig ekki.
Skjölin fundust á miðvikudag, sama dag og mappa með leyniskjölum fundust í annarri lest en sá sem þau fann fór með þau til breska ríkisútvarpsins, BBC. Það voru skjöl sem fjölluðu um hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og öryggismál í Írak og áttu aldrei að fara út úr forsætisráðuneytinu.
Síðari skjalabakkinn virðist tengjast ráðstefnu um alþjóðlega fjármálaglæpi, sem hefst í Lundúnum í á morgun.