Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur lýst því yfir að hann muni einungis afhenda stjórnartaumana þeim sem deila hans hugmyndafræði.
Mugabe mætir stjórnarandstöðumanninum Morgan Tsvangirai í forsetakosningum þann 27. júní. Mugabe heldur áfram að láta svo líta út fyrir að Tsvangirai sé ekkert nema leikbrúða Bandaríkjanna og Bretlands. Tsvangirai neitar þessum ásökunum.
Mugabe segir að hann sé tilbúinn til að víkja fyrir öðrum leiðtogum síns flokks en hann muni ekki gera það svo lengi sem svikarar hóti því að taka völdin.
Tsvangirai sigraði í fyrstu umferð forsetakosninganna í mars þegar fjórir voru í kjöri. Samkvæmt opinberum kosningaúrslitum var fylgi hans þó ekki yfir 50 prósent og dugði því ekki til að forðast aðra umferð kosninga þar sem hann og Mugabe forseti eru í kjöri.