Svo virðist sem sjálfsvígsfaraldur gangi nú yfir austurhluta Grænlands og hann teygir sig einnig til fleiri hluta landsins. Það eru einkum ungir karlmenn, sem vilja ekki lifa lengur. Í bænum Tasiilaq, þar sem 1800 manns búa, þarf lögregla að fást við sjálfsvígstilraun nánast daglega.
Danska blaðið Politiken hefur eftir Kristian Sinngertaat, lögreglustjóra í Tasiilaq, að um síðustu helgi hafi lögreglan fengið sex útköll vegna sjálfsvígsstilrauna. Allt var þetta ungt fólk.
„Við getum lítið annað gert en að fara með þau til læknis, þar sem þau fá sprautu til að geta sofið það sem eftir er dagsins. Og þau, sem ekki róast niður, verðum við að setja í einangrun undir eftirliti læknis," segir Sinngertaat.
Hann segir, að síðasta sjálfsvígstilraunin hafi verið aðfaranótt fimmtudags. Þetta fái svo á lögreglumennina í bænum, þar sem allir þekkja alla, að þeir reyni að fá sig flutta til annarra bæja.
Opinberar tölur á Grænlandi sýna, að fimmti hver unglingur á aldrinum 15-17 ára hefur reynt að svipta sig lífi og á austurströndinni er þetta hlutfall um helmingur. 58 Grænlendingar tóku eigið líf árið 2006 og 37 á síðasta ári.
Blaðið hefur eftir Jette Eistrup, sem skipuleggur forvarnir gegn sjálfsvígum í Paarisa á Grænlandi, að það séu einkum ungir karlmenn á aldrinum 15 til 25 ára, sem fremja sjálfsvíg. Lítil hjálp er í boði fyrir þá sem eru í sjálfsvígshugleiðingum eða hafa reynt sjálfsvíg. Enginn sálfræðingur er t.d. í Tasiilaq.