Susan Atkins, sem tók þátt í að myrða leikkonuna Sharon Tate og fjóra vini hennar árið 1969 í Hollywood, er dauðvona og á þá ósk heitasta að fá frelsi áður en hún deyr. Atkins, sem er sextug að aldri, hefur setið í fangelsi í 37 ár vegna morðanna, lengur en nokkur önnur núlifandi kona.
Yfirvöld í Kalíforníu staðfesta, að heilsa Atkins sé slæm en hún er með heilaæxli. Læknar segja að hún eigi um hálft ár eftir ólifað. Það tæki hins vegar álíka langan tíma fyrir Atkins að fá náðun.
Atkins var á sínum tíma í svonefndri Mansonfjölskyldu, hálfgerðum sértrúarsöfnuði sem Charles Manson stýrði. Manson fékk fjögur úr fjölskyldunni, Atkins, sem var 22 ára, Charles „Tex" Watson, sem var 25 ára, Patriciu Krenwinkel, 22 ára og and Lindu Kasabian, 20 ára, til að myrða Tate og vini hennar.
Við réttarhöld vegna málsins viðurkenndi Atkins aðild sína og lýsti blóðbaðinu. Tate, sem þá var 26 ára, var gift kvikmyndaleikstjóranum Roman Polanski og var kominn átta og hálfan mánuð á leið. Hefur Atkins lýst því, að Tate bað ítrekað um að fá að lifa þar til barn hennar fæddist. Polanski var staddur erlendis þegar þetta gerðist.
Atkins var upphaflega dæmd til dauða ásamt Manson og fleirum úr fjölskyldunni en þeim dómi var breytt í ævilangt fangelsi árið 1972.
Mansonfjölskyldan framdi fleiri morð þetta sumar og alls var fjölskyldan dæmd fyrir níu morð. Lögreglu grunar, að félagar í fjölskyldunni kunni að hafa framið allt að 30 morð og fyrir nokkrum vikum hóf lögregla á ný rannsókn á sveitabæ, þar sem fjölskyldan bjó um tíma. Grunur lék á, að þar væru grafin lík en ekkert fannst.