Á milli fimm og sexhundruð fjölskyldum í Iowa City í Bandaríkjunum var í morgun gert að yfirgefa heimili sín vegna flóða. Þá hafa hundruð fjölskyldna til viðbótar yfirgefið heimili sín án þess af eigin frumkvæði. Nemendur og starfsfólk háskólans í Iowa vinna nú baki brotnu að því að bjarga því sem bjargað verður úr skólanum.
„Ég hugsa bara um það núna hverju megi bjarga,” segir Sally Mason, forseti skólastjórnar. „Við munum taka á öðrum málum þegar neyðarástandi er um garð gengið. Það er enn neyðarástand.” Vatn hefur flætt inn í sextán byggingar skólans þeirra á meðal eina sem hönnuð er af hinum fræga arkitekt Frank O. Gehry.
Vatnsyfirborð í borginni hefur lækkað lítillega frá því í gær en Chet Culver, ríkisstjóri Iowa, segir ástandið þó enn alvarlegt. „Við stöndum enn frammi fyrir mjög alverlegri ógn við almannaöryggi,” segir hann. Þá segir hann líklegt að ár eigi eftir að flæða yfir bakka sína um allt suðaustanvert ríkið.
Mjög hefur dregið úr flóðum í bænum Cedar Rapids, þar sem 24.000 íbúar þurftu að yfirgefa heimili sín um helgina en fólkið bíður þó enn eftir leyfi til að snúa heim á meðan yfirvöld ganga úr skugga um að fólki stafi ekki hætt af skemmdum á byggingum og rafkerfum.