Karlmaður í Texas var í gær dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt átta mánaða gamlan son sinn með því að leyfa honum að sjúga fingur sem voru með kókaíni á. Auk þess var faðirinn dæmdur til að greiða sekt upp á 10 þúsund Bandaríkjadali fyrir athæfið.
Dennis Ray Driver, 26 ára, sagðist hafa sofnað í íbúð sinni þann 28. desember sl. með soninn liggjandi á bringunni. Þegar hann vaknaði var barnið hætt að anda og lést á sjúkrahúsi daginn eftir. Dánarorsökin var of stór skammtur af kókaíni. Viðurkenndi faðirinn að hafa verið með kókaín á fingrunum sem barnið saug síðan, að sögn saksóknara í málinu,Murray Newman. Saksóknari sagðist ekki telja að Driver hafi vísvitandi gefið barni sínu kókaíni. „Við erum ekki að reyna að sanna að hann hafi vísvitandi verið valdur að dauða barnsins. Þetta kemur hins vegar þeim skilaboðum til foreldra að gæta barna sinna og forða því að þau komist í ólögleg efni," sagði Newman.
Að sögn Newman hefur Driver að minnsta kosti átta sinnum verið dæmdur, þar af sex sinnum í tengslum við kókaín. Á vef Houston Chronicle kemur fram að þegar barnið lést hafi Driver verið laus gegn tryggingu en hann hafði verið ákærður fyrir vörslu kókaíns.