Eiginkonur forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum hafa nóg að gera þessa dagana við að sýna það og sanna að þær komi til með að standa sig vel í hlutverki forsetafrúar Bandaríkjanna.
Á meðan Michelle Obama, eiginkona forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, kom fram í vinsælum spjallþætti í Bandaríkjunum var Cindy McCain stödd í Víetnam þar sem hún hitti fötluð börn en hún hefur verið atkvæðamikil í mannúðarstarfi í Víetnam til margra ára. Eins og frægt er var eiginmaður hennar John McCain fangi í fangabúðum í Víetnam í rúm fimm ár.
Í gær tók Michelle Obama þátt í spjallþættinum The View í New York ásamt leikaranum Matthew Broderick. Cindy McCain var gestur í þættinum í apríl.