Lík fjögurra stjórnarandstöðumanna finnast í Zimbabwe

Lík fjögurra stjórnarandstöðumanna sem hafði verið rænt fundust nærri höfuðborg Zimbabwe. Talsmenn stjórnarandstöðuflokksins, MDC, segja stuðningsmenn forsetans, Roberts Mugabe, standa að baki morðunum.

Óstaðfestar fréttir herma einnig að lík eiginkonu nýkjörins borgarstjóra úr MDC hafi fundist, illa brunnið. Fréttavefur BBC skýrir frá þessu.

Ofbeldið hefur verið gagnrýnt harðlega af erlendum leiðtogum en stuðningsmenn Mugabes neita allri ábyrgð.

MDC segir að sjötíu stuðningsmenn þeirra hið minnsta hafi nú verið drepnir og að 25 þúsund hafi verið hraktir af heimilum sínum í ríkisstyrktri herferð gegn stjórnarandstöðunni. Þetta sé liður í aðgerðum vegna annarrar umferðar forsetakosninganna 27. júní.

Opinberi ríkisfjölmiðillinn ZBC hefur tilkynnt að hann muni ekki lengur flytja auglýsingar fyrir MDC. Flokkurinn hefur sagt að hann muni leita réttar síns vegna þessa.

Dómsmálaráðherra landsins hefur varið ákvörðunina og sagt að alþjóðleg umfjöllun sé ætíð hliðholl MDC og skýri aldrei frá afstöðu stjórnarflokksins, Zanu-PF.

Formaður stjórnarandstöðuflokksins, Tendai Biti, kemur brátt fyrir dóm vegna ákæra um landráð. Hann var handtekinn í síðustu viku þegar hann kom til Zimbabwe frá Suður Afríku. Þegar hann kom fyrir rétt á miðvikudag var hann í fótjárnum. Sökum rafmagnsleysis í dómsalnum var réttarhaldi frestað.

Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, Ban Ki-moon, lýsti í gær yfir áhyggjum vegna ofbeldisins í Zimbabwe.

Tugir þúsunda hafa verið hraktir af heimilum sínum af stuðningsmönnum …
Tugir þúsunda hafa verið hraktir af heimilum sínum af stuðningsmönnum Roberts Mugabe, grunaðir um að hafa kosið MDC í kosningunum í maí. Reuter
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert