Fulltrúadeild bandaríska þingsins hefur samþykkt lög sem vernda símafyrirtæki sem hafa aðstoðað Hvíta húsið við umdeildar símahleranir. Lögin veita einnig ríkisstjórn Bandaríkjanna heimild til að halda áfram með símhleranir án sérstaks leyfis frá dómara.
Á fréttavef BBC kemur fram að ríkisstjórn George W. Bush hafi verið gagnrýnd harðlega fyrir áætlaðar símahleranir á símum erlendra ríkisborgara án heimilda og jafnframt hafi símfyrirtæki átt yfir höfði sér um 40 málshöfðanir fyrir þátttöku sína í hlerununum.
Fyrri tilraunir til að koma lögunum í gegnum þingið hafa strandað á tregðu Demókrata til að veita símfyrirtækjum friðhelgi og hafa viljað láta dómstóla skera úr um hvort þau hafi gerst brotleg.
Í dag náðist samkomulag um að símafyrirtæki væru ekki sjálfkrafa undanþegin lögum um hleranir en nú eru dómstólar skyldugir til að hafna öllum málum sem höfðuð eru gegn símafyrirtækjum sem geta sýnt fram á að Hvíta húsið hafi farið fram á hleranirnar og staðfest að þær væru löglegar.
Reiknað er með að öldungadeild þingsins muni einnig samþykkja frumvarpið og að lögin muni taka gildi innan tíðar.