Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, segir að Evrópusambandið muni ekki geta stækkað frekar án staðfestingar á Lissabon sáttmálanum, sem Írar höfnuðu í síðustu viku. Sarkozy segir að án endurbóta verði engin stækkun. Sarkozy lét þessi ummæli falla á ráðstefnu Evrópusambandsins sem nú stendur yfir í Brussel. Skiptar skoðanir eru á milli leiðtoga Evrópuþjóða um framtíð sáttmálans en ákvörðun um framhald málsins hefur verið frestað þar til í október. Nítján ríki hafa staðfest sáttmálann hingað til, nú síðast staðfesti breska þingið hann á miðvikudag.
Á ráðstefnunni náðist sátt um að hætta refsiaðgerðum gegn Kúbu sem voru settar árið 2003, að því er fram kemur á fréttavef BBC.