Ef fram heldur sem horfir kann svo að fara að enginn sumarís verði á norðurpólnum innan fimm til tíu ára og að hop frerabrynjunnar verði enn hraðara en talið hefur verið.
Fyrir nokkrum árum var því haldið fram að norðurpóllinn yrði íslaus sumarið 2080, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins, BBC.
Bráðnunin hefur síðan verið hraðari en ráð var fyrir gert og eins og vísindamaðurinn Charles J. Vörösmarty benti á í samtali við Morgunblaðið um áramótin þá hopaði flatarmál ísbrynjunnar niður í 4,2 milljónir ferkílómetra í árslok 2007, miðað við 7,8 milljónir ferkílómetra 1980, eftir metbráðnun síðasta sumar.
Er flatarmál íssins sem hefur bráðnað síðan 1980 gróflega á við helming flatarmáls Bandaríkjanna, að fylkjunum Hawaii og Alaska frátöldum. Eftir því sem ísinn hopar og endurvarp hans á sólarljósi minnkar þeim mun meira hitnar sjórinn. Það hraðar bráðnuninni.