Scott McClellan, fyrrum blaðafulltrúi forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, sagði við dómsmálanefnd Bandaríkjaþings í dag að hann vissi ekki hvort nokkur starfsmaður Hvíta hússins hafi brotið lög þegar nafni eiginkonu sendiherrans Josephs Wilson, Valerie Plame, var lekið í fjölmiðla, en hún vann hjá CIA.
Ásakanir komu fram um að embættismenn Bush-stjórnarinnar hefðu lekið
nafni Plame til að hefna sín á Wilson sem gagnrýnt
hafði innrásina í Írak.
Sérlegur saksóknari var skipaður til að rannsaka lekann.
Í bók sem kom út fyrr á árinu gagnrýnir McClellan Bush, og segir hann ekki hafa verið opinskáan og hreinskilinn um mál Íraks, og að hann hafi flanað út í ástæðulaust stríð.
McClellan starfaði með Bush þegar hann gegndi embætti ríkisstjóra í Texas, og starfaði í Hvíta Húsinu frá því í júli 2003 og þar til hann sagði af sér í apríl árið 2006.
Þegar úrdráttur úr bókinni var birtur á síðasta ári kom fram að McClellan sakaði forsetann og Dick Cheney, varaforseta um að hafa reynt að afvegaleiða almenning í máli Valerie Plame. Því ákvað dómsmálanefndin að kalla hann á fund sinn til þess að ræða ásakanir þær sem birtast í bókinni.
Scott McClellan sagði þingnefndinni það að Bush og Cheney hafi viljað fá hann til að halda því fram að starfsmannastjóri Cheneys, I. Lewis „Scooter" Libby, hefði ekki komið nálægt lekanum sem síðar hafi komið í ljós að var rangt. Síðar var Libby dæmdur fyrir að hindra rannsókn málsins. McClellan sagði nefndinni það að hann teldi að stjórnvöld væru enn að breiða yfir sannleikann í Plame-málinu.„Hvíta húsið lofaði og fullvissaði bandarísku þjóðina um að á einhverjum tímapunkti, þegar málinu væri lokið, þá myndi þeir ræða það opinberlega," sagði hann nefndinni í dag. „Og nú neita þeir að gera það."
McClellan sagðist ekki trúa því að Bush hafi vitað af lekanum eða látið leka upplýsingum um Plame. Þegar hann var spurður um hlut Cheney svaraði hann: „Ég veit það ekki."