Fossar vígðir á fimmtudag

Ólafur Elísasson í New York
Ólafur Elísasson í New York AP

Fossarnir sem Ólafur Elíasson myndlistarmaður hefur látið reisa í Austurá í New York voru prófaðir í gær en þeir verða formlega settir í gang á fimmtudag. Ólafur segir í viðtali við AP fréttastofuna að í New York sé vatn allsstaðar og fólk taki því sem gefnum hlut. Fossarnir verða í gangi frá 7 á morgnana þar til 10 á kvöldin. Þeir verða sýnilegir bæði frá Brooklyn og Manhattan.

„Mitt starf snýst um sambandið á milli fossana, ferðalagið um þennan hluta borgarinnar og áhorfandann," segir Ólafur í viðtali við AP. „Ég vil að fólk sjái eitthvað sem er persónulegt. Ég vil að fólk sjái sig sjálft og eðli sitt. Ég móðgast ekki þegar fólk segir að þetta sé ekki list," bætir Ólafur við.

Borgaryfirvöld í New York gera ráð fyrir að verk Ólafs muni skila borginni að minnsta kosti 55 milljónum Bandaríkjadala í tekjur. „Verkið mun verða mikil innspýting inn í efnahagslíf borgarinnar með því að laða að þúsundir ferðamanna sem eyða peningum á veitingahúsunum okkar, hótelum og verslunum, segir Michael Bloomberg, borgarstjóri New York borgar í samtali við AP. 

Hótel og ferðaskrifstofur bjóða upp á ýmsa möguleika fyrir ferðamenn til þess að skoða fossana, meðal annars hjólreiðaferðir og bátsferðir.  

Fossar Ólafs eru stærsta verkið sem sett er upp af borgaryfirvöldum í New York frá því að hjónin Christo og Jeanne-Claude settu upp verkið Gates upp árið 2005. Verkið stóð í 16 febrúardaga í Central Park í New York. 42 kílómetra langar raðir af appelsínugulum hliðum sem lágu um allan garðinn löðuðu að gesti alls staðar að úr heiminum en talið er að fimm milljónir hafi farið í Miðgarð til þess að skoða verkið. Verkið var 26 ár í undirbúningi.  Talið er að það hafi skilað fyrirtækjum í borginni 254 milljónum dala tekjum.

Fossar Ólafs kosta 15,5 milljónir dala og meðal þeirra sem lögðu fé í framkvæmdina er fjölmiðlafyrirtæki Bloombergs, Bloomberg LP sem lagði til 13,5 milljónir dala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert