Einungis fjórir fundir á lífi eftir ferjuslys

Yfir átta hundruð manns er saknað eftir að ferju hvolfdi við eyjuna Sibuyan í miðjum Filippseyjaklasanum í gær. Fjöldi fólks hefur látist á Filippseyjum eftir að fellibylurinn Fengshen reið yfir eyjarnar. Einungis fjórir sem voru um borð í ferjunni hafa fundist á lífi en slæmt veður og mikil ölduhæð hefur hamlað björgunarstarfi.

Alls voru 845 um borð í ferjunni er hún sökk. Tók það björgunarsveitir sólarhring að komast á svæðið þar sem hún sökk út af veðurofsanum.

Forseti Filippseyja, Gloria Arroyo, hefur krafist skýringa á því hvers vegna ferjan fékk heimild til þess að yfirgefa höfnina í Manila, höfuðborg landsins, á föstudag, þrátt fyrir viðvaranir um fellibyl.  Vél ferjunnar bilaði síðdegis á laugardag, að staðartíma og talstöðvarsamband við hana rofnaði fljótlega eftir miðnætti í nótt. Ferjan var á leið til Cebu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert