Hundruð stuðningsmanna Roberts Mugabe, forseta Simbabve, hafa hópast saman á leikvelli þar sem stjórnarandstaðan ætlar að halda fund í dag. Liðsmenn öryggissveita lögreglu stöðva allar bifreiðar sem koma í nágrenni við leikvöllinn og krefja fólk um skilríki, að sögn sjónarvotta.
Talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar segir að þrátt fyrir þetta verði fundurinn haldinn en Morgan Tsvangirai, leiðtogi Lýðræðishreyfingarinnar og forsetaframbjóðandi hennar, ætlar að taka þátt í fundinum. Síðari umferð forsetakosninganna fer fram á föstudag. Tsvangirai hefur hótað því að hætta við framboðið en ákvörðun þar að lútandi verður tekin á morgun, samkvæmt frétt BBC.
Lýðræðishreyfingin segir að öryggissveitir og vopnaðir hópar stuðningsmanna Mugabes hafi myrt að minnsta kosti 70 stuðningsmenn Tsvangirais. Margir þeirra voru pyntaðir til dauða, að sögn mannréttindasamtakanna Amnesty International, eða brenndir lifandi. Um 25.000 manns hafa verið hraktir frá heimilum sínum og þúsundir manna hafa sætt barsmíðum og pyntingum.