Hertar refsiaðgerðir væntanlegar gegn Íran

Loftvarnabyssur í Natanz, þar sem Íranar auðga úran
Loftvarnabyssur í Natanz, þar sem Íranar auðga úran AP

Evrópusambandið mun væntanlega kynna hertar refsiaðgerðir gegn Íran síðar í dag. Munu þær einkum beinast að fjármálastofnunum þar á meðal Melli bankanum, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar. Ef satt reynist þá verður bankanum gert að loka starfsstöðvum sínum í Lundúnum, Hamborg og París. 

Samkvæmt heimildum AFP verður þetta samþykkt á fundi ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála ríkja ESB sem stendur yfir í Lúxemborg í dag og á morgun.

Er talið að með hertum aðgerðum verði fleirum opinberum embættismönnum í Íran bætt á ferðabanns lista til ríkja ESB og að eignir fleiri verði frystar. Í mars samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna frekari refsiaðgerðir gegn Íran en refsiaðgerðir gegn Íran voru einnig samþykktar í ráðinu 2006 og 2007.

Tengjast refsiaðgerðirnar kjarnorkuáætlun Írana en vesturveldin telja að ætlun Írana sé að auðga úran til kjarnorkuvopnaframleiðslu. Stjórnvöld í Íran segja hins vegar að ekki sé ætlunin að hefja framleiðslu kjarnorkuvopna heldur eigi að nýta kjarnorkuna til orkuframleiðslu. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert