Reglum um ráðherrabíla breytt

Það er spurning hvort danskir ráðherrar sjáist nú oftar á …
Það er spurning hvort danskir ráðherrar sjáist nú oftar á reiðhjólum í stað ráðherrabíla. mbl.is/Ómar

Danska forsætisráðuneytið hefur breytt starfsreglum um notkun ráðherrabíla í kjölfar mikillar umfjöllunar um meinta misnotkun Bendt Bendtsens, umhverfis og fjármálaráðherra, á ráðherrabílnum. Breytingarnar auka svigrúm ráðherra til að nýta ráðherrabílana í einkaerindum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Lögfræðingar segja breytingarnar ekki í samræmi við dönsk skattalög þar sem þær veiti ráðherrum fríðindi sem ekki eru talin fram til skatts. „Þetta virðist  vera tilraun til að heimila eitthvað með afturvirkum hætti,” segir Oluf Jørgensen, deildarstjóri í Danmarks Journalisthøjskole og sérfræðingur í málum er varða fríðindi opinberra starfsmanna.

Michael Gøtze, lektor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla tekur í sama streng og segir reglurnar fremur vera lýsingu á því fyrirkomulagi sem nú viðgengs en útfærslu á lögunum. „Skattalögin um notkun vinnubíla, sem ráðherrabílarnir falla undir, eru mjög skýr. Vilji menn breyta reglunum um notkun ráðherrabíla þarf að gera það með lagasetningu,” segir hann. „Það er ekki hægt að gera það í leiðbeiningum.”

Málið kom upp eftir að fyrrum bílstjóri Bendtsen greindi frá því að hann hafi margsinnis ekið honum á milli staða í persónulegum erindagjörðum. Bendtsen hefur svarað því til að oft sé erfitt að greina á milli embættiserinda og persónulegra erinda ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert