Bandaríkjastjórn hefur hvatt til að þess að Sameinuðu þjóðirnar lýsi stjórn Robert Mugabe, forseta Simbabve, óréttmæta. Yfirvöld í Simbabve sæta nú harðnandi gagnrýni á alþjóðavettvangi eftir að Morgan Tsvangirai, forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðunnar í landinu, ákvað að hætta við þátttöku í annarri umferð forsetakosninganna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Levy Mwanawasa, forseti Sambíu, sem fer með forsæti innan samtaka ríkja í sunnanverðri Afríku, segir ákvörðun Tsvangirai þá einu réttu í stöðunni enda væru kosningar við þær aðstæður, sem nú eru í Simbabve, skammarlegar. Yfirvöld í Simbabve vísa hins vegar allri gagnrýni á bug og segja Tsvangirai hafa ákveðið að draga sig í hlé til að komast hjá niðurlægingu.
Tsvangirai hlaut flest atkvæði í fyrrum umferð forsetakosninganna en kjörstjórn í landinu sagði hann ekki hafa hlotið nógu mörg atkvæði til að tryggja sér bindandi kosningu.
Síðan þá hafa stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar sætt ofsóknum og Mugabe lýst því yfir að flokkur Tsvangirais muni ekki komast til valda í landinu á meðan hans njóti við. Þá hefur hann lýst því yfir að uppgjafarhermenn séu reiðubúnir til að grípa til vopna til að verja ríkjandi stjórn.
Tsvangirai sagði er hann tilkynnti um ákvörðun sína í gær að það væri tilgangslaust að taka þátt í kosningunum þar sem engin vorn væri um að þær yrðu frjálsar og óháðar og ljóst sé að Mugabe einn muni ráða úrslitum þeirra.