Arðbær ópíumframleiðsla

Blóm valmúaplöntunnar en ópíum er unnið úr henni.
Blóm valmúaplöntunnar en ópíum er unnið úr henni.

Talibanar fengu á síðasta ári um 100 milljónir Bandaríkjadala greiddar frá bændum sem rækta ópíum í Afganistan, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. Um er að ræða 10% skatt sem talibanar leggja á bændur sem búa á svæðum sem talibanar ráða yfir. SÞ áætlar að hagnaður af ópíumræktun hafi verið 1 milljarður Bandaríkjadala á síðasta ári.

Antonio Maria Costa, sem stýrir eiturlyfja- og glæpadeild SÞ, segist telja að talibanar hafi enn meira upp úr krafsinu með því að krefja þá sem koma að ópíumviðskiptum á einn eða annan hátt um skatt. Til að mynda þá sem framleiða eiturlyf á rannsóknarstofum og þá sem flytja það úr landi, að því er fram kemur á fréttavef BBC. 

Tölur fyrir árið í ár liggja ekki fyrir en talið er að framleiðslan sé mun minni í ár vegna þurrka, ásókn skordýra á ópíumakra og aðgerðir gegn ópíumræktun í norður- og austurhluta Afganistan. Costa telur hins vegar að hagnaðurinn muni ekki minnka umtalsvert þrátt fyrir þetta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert