Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi í dag úr gild lög í einstökum ríkjum Bandaríkjanna sem heimila aftökur á þeim sem dæmdir eru fyrir að nauðga barni. Af níu dómurum í Hæstarétti greiddu fimm atkvæði með því að fella lögin úr gildi en fjórir voru því andvígir.
Segir í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar að lög sem heimila aftökur á þeim sem dæmdir eru fyrir nauðgun á börnum brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár landsins sem kveða á um bann við grimmilegum og óvenjulegum refsingum.
„Dauðarefsing er ekki viðeigandi refsing fyrir nauðgun á barni," skrifaði Anthony Kennedy, dómari við Hæstarétt. Í Bandaríkjunum hefur enginn verið tekinn af lífi fyrir annan glæp en morð í 44 ár.Patrick Kennedy, 43 ára, var dæmdur til dauða fyrir að nauðga átta ára gamalli stjúpdóttur sinni í Louisiana. Hann er annar tveggja í Bandaríkjunum sem hafa verið dæmdir til dauða fyrir nauðgun, þar sem fórnarlambið hélt lífi. Í báðum tilvikum voru viðkomandi dæmdir í Louisiana.
Árið 1977 lagði Hæstiréttur Bandaríkjanna bann við dauðarefsingum fyrir nauðganir á fullorðnum einstaklingum. Þau ríki sem hafa heimilað dauðarefsingu fyrir nauðgun á barni eru auk Louisiana: Montana, Oklahoma, Suður-Karólína auk Texas. Í flestum ríkjanna er kveðið á um að viðkomandi hafi áður verið dæmdur fyrir nauðgun á barni.