Verslunarmenn vilja taka upp evru

SÞV vilja taka upp evru.
SÞV vilja taka upp evru. Reuters

Evrópunefnd Samtaka þjónustu og verslunar hefur komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum aðildarfélaga þeirra væri betur borgið innan Evrópusambandsins.

Í tilkynningu frá samtökunum segir: „ Innan SVÞ- Samtaka verslunar og þjónustu hefur að undanförnu farið fram skoðun á því hvort félagsmenn telji hag sínum betur borgið með öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni. Mikill óstöðugleiki gengis og hátt vaxtastig, sem hefur undanfarin ár einkennt íslenskt efnahagslíf og skapar slíkt afar erfiða rekstrarumgjörð fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki."
Niðurstaða Evrópunefndarinnar liggur nú fyrir og segir meðal annars í tilkynningunni:

- Fyrirtækin í landinu hafa eftir mætti verið að færa viðskipti sín í erlenda mynt til að gengisverja rekstur sinn og spyrna við því ójafnvægi sem skapast hefur.  Allt bendir til að þessi viðleitni fyrirtækjanna muni halda áfram og sífellt fleiri rekstrarþættir, þ.m.t. laun, verði færð í erlendri mynt. Alvarlegasta birtingarmynd þessa ástands er að þau fyrirtæki sem hafa aðstöðu til, flýja óstöðugleikann og leita skjóls í stöðugra umhverfi erlendis;
- Á það hefur verið bent, m.a. af forsætisráðherra, að það séu einungis tvær leiðir í stöðunni; annars vegar að búa áfram við íslensku krónuna eða; að ganga í Evrópusambandið og gerast þátttakandi í myntbandalaginu og þar með taka upp evru sem gjaldmiðil hér á landi;
- Ýmsar rannsóknir benda til þess að aðild Íslands að Evrópusambandinu og myntbandalaginu geti bætt rekstrarumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja. Þar má nefna aukin viðskipti innan svæðisins vegna myntsamruna, lækkun viðskiptakostnaðar, aukin samþætting, áhættudreifing fjármálamarkaða og aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur stjórn SVÞ mótað sér eftirfarandi stefnu:

- Íslensk stjórnvöld eru hvött til að lýsa því yfir vilja til að  undirbúa  viðræður um aðild að Evrópusambandinu;
- Á sama tíma fari fram ítarlegar, hlutlausar og fordómalausar umræður á opinberum vettvangi um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu;
- Stjórnvöld kalli til samstarfs fulltrúa atvinnulífsins og aðra hagsmunaðila í því skyni að fjalla um hvaða forsendur þurfa að vera til staðar til að aðild að Evrópusambandinu teljist fýsilegur kostur.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka