Fossarnir sem Ólafur Elíasson myndlistarmaður hefur
látið reisa í Austurá í New York voru formlega vígðir í kvöld klukkan átta að staðartíma, á miðnætti á íslenskum tíma. Fossarnir verða í gangi frá 7 á morgnana fram til 10 á
kvöldin þar til 13. október. Vinna við gerð þeirra hefur tekið tvö ár.
Borgaryfirvöld í New York gera ráð fyrir að verk Ólafs muni skila borginni að minnsta kosti 55 milljónum Bandaríkjadala, rúmum 4,4 milljörðum króna, í tekjur. „Verkið mun verða mikil innspýting inn í efnahagslíf borgarinnar með því að laða að þúsundir ferðamanna sem eyða peningum á veitingahúsunum okkar, hótelum og verslunum, segir Michael Bloomberg, borgarstjóri New York borgar í samtali við AP.
Hótel og ferðaskrifstofur bjóða upp á ýmsa möguleika fyrir ferðamenn til þess að skoða fossana, meðal annars hjólreiðaferðir og bátsferðir.
Fossar
Ólafs eru stærsta verkið sem sett er upp af borgaryfirvöldum í New York
frá því að hjónin Christo og Jeanne-Claude settu upp verkið Gates upp
árið 2005. Verkið stóð í 16
febrúardaga í Central Park í New York. 42 kílómetra langar raðir af
appelsínugulum hliðum sem lágu um allan garðinn löðuðu að gesti alls
staðar að úr heiminum en talið er að fimm milljónir hafi farið í
Miðgarð til þess að skoða verkið. Verkið var 26 ár í undirbúningi.
Talið er að það hafi skilað fyrirtækjum í borginni 254 milljónum dala
tekjum.
Fossar
Ólafs kosta 15,5 milljónir dala, tæplega 1,3 milljarða króna, og voru að mestu fjármagnaðir úr sjóðum í einkaeigu.
„Fossarnir eru vel til þess fallnir að afhjúpa stærðarhlutföllin í borgarlandslaginu,“ segir Ólafur Elíasson um fossana sína í Austurá New York-borgar, í viðtali við Fríðu Björk Ingvarsdóttur í Morgunblaðinu. „Um leið afhjúpa þeir margræð tengsl við tímann og almenningsrýmið í gegnum líkama þess sem horfir. Í þeim skilningi hvetja þeir okkur til skilnings á umhverfi okkar og samfélagi. Við erum öll nákunnug vatni.“
Hann lítur svo á að Fossarnir, nýtt myndlistarverk hans á Austuránni í New York, bjóði fólki upp á nýjar leiðir til að upplifa sjálft sig og tengsl sín við umhverfið.
Ólafur segir einn fossanna eiga sér fyrirmynd í Skógarfossi og annan í minni fossi í Fljótshlíðinni. „Fallandi vatn er svo ótrúlega flott fyrirbrigði. Fossar eru svo einfaldir og það þarf ekki mikið vatn inni í borginni til að útkoman verði sláandi.“
Hann lýsir því í viðtali við Fríðu Björk hvernig hann uppgötvaði fossa sem mælikvarða á hæð og fjarlægð á leið sinni um austur á land eftir hringveginum.
„Þegar maður fylgist með hraða fallandi vatnsins þá gerir maður sér allt í einu grein fyrir hæð fjallsins sem fossinn fellur úr. Því hægar sem vatnið virðist falla því hærra er fjallið. Allir Íslendingar þekkja þessa sýn og hvernig fossinn er mælikvarði á það sem er í baksýn. Ég yfirfæri þetta yfir á borgarlandslagið í New York. Fossarnir í Austuránni gera okkur kleift að skynja í gegnum líkama okkar ótrúlega háar byggingarnar í baksýn, rétt eins og fossarnir í Fljótshlíðinni brúa bilið á milli okkar og fjallanna.“
Verk Ólafs Elíassonar fær mjög góða umfjöllun í New York Times