Blikur á lofti

Reuters

Sérfræðingar í flugmálum í Bandaríkjunum segja að horfur séu orðnar svo dökkar í farþegaflugi þar í landi, að hætta geti orðið á allsherjarhruni í byrjun næsta árs. Hafa sumir forráðamenn bandarískra flugfélaga farið fram á að stjórnvöld herði reglur, sem fram til þessa hefur ekki mátt minnast á.

En bæði forráðamenn flugfélaga og fréttaskýrendur eru sammála um að stjórnvöld og forsetaframbjóðendurnir tveir þurfi nauðsynlega að átta sig á því hve alvarlegur vandinn sé, og grípa í taumana áður en allt fer á versta veg.

„Verði ekki eitthvað gert strax til að bæta ástandið munu öll stóru flugfélögin ramba á barmi gjaldþrots,“ hefur The Cristian Science Monitor eftir Robert Crandall, fyrrverandi stjórnarformanni American Airlines, stærsta flugfélags í heiminum.

Vegna mikillar olíuverðshækkunar tapar nú svo að segja hvert einasta flugfélag milljónum dollara á hverjum ársfjórðungi. Fari eldsneytisverðið ekki að lækka má búast við að flest félögin verði orðin uppskroppa með lausafé í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.

Til að koma í veg fyrir gjaldþrot hafa félögin gripið til aðgerða og áætla að segja alls upp um 25.000 starfsmönnum, leggja mörg hundruð flugvélum og draga úr ferðaframboði.

Samkvæmt nýrri athugun má búast við að allt flug til um 100 smærri og 50 stærri flugvalla í Bandaríkjunum leggist af.

Fulltrúar stærstu flugfélaganna hittu þingmenn að máli í Washington í vikunni og hvöttu til aðgerða gegn spákaupmönnum á olíumarkaðinum. Sumir greinar kenna spákaupmennsku um að verð á þotueldsneyti hefur næstum því tvöfaldast á undanförnu ári.

Eldsneytiskaup eru nú orðin stærsti útgjaldaliður flugfélaganna, en voru áður sá næst stærsti, á eftir launakostnaði.

Að mati flugfélaganna er lausn vandans fólgin í því að knýja eldsneytisverðið niður með því að stöðva spákaupmennskuna, segir talsmaður Samtaka flugfélaga (ATA).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert