Talningu atkvæða í forsetakosningunum í Simbabve sem fram fóru á föstudag lýkur væntanlega í síðar í dag og mun Robert Mugabe sverja embættiseið eftir að úrslitin verða kunngjörð opinberlega. Hann fer til Egyptalands á morgun þar sem hann situr ráðstefu Afríkusambandsins. Desmont Tutu, fyrrum erkibiskup í Höfðaborg í Suður-Afríku, hvatti alþjóðasamfélagið til þess í dag að grípa inn í Simbabve, með hervaldi ef nauðsyn þykir, að því er fram kemur á vef BBC.
Stuðningsmenn Mugabe gengu í skrokk á fólki í gær sem ekki gat sannað að það hefði kosið í forsetakosningunum, samkvæmt upplýsingum frá Mannréttindavaktinni. Hafa stjórnvöld margra lýst kosningunum sem hneyksli, þar á meðal George W. Bush, forseti Bandaríkjanna. Hafa mannréttindasamtökin, Human Right Watch, eftir íbúum í Harare að stuðningsmenn Mugabe hafi gengið hús úr húsi í gærmorgun og neytt fólk til þess að rétta fram hendurnar til þess að sanna að það væri með blek á fingrum sem merki um þátttöku í kosningunum. Þeir sem ekki voru með blek á fingrunum voru teknir og barðir til óbóta.
Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, fékk flest atkvæði í fyrri umferð kosninganna en ekki nægan til þess að hljóta kosningu og því þurfti að kjósa á ný á milli hans og Mugabe, sitjandi forseta. Vegna ofbeldisöldunnar sem fylgdi í kjölfarið ákvað Tsvangirai fyrir viku síðan að hætta við framboðið og var því Mugabe einn í kjöri.
Mugabe, 84 ára, hefur verið forseti Simbabve frá því landið fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1980.