Það hefur komið mörgum innanbúðarmönnum í Repúblikanaflokknum á óvart að Mitt Romney er nú talinn líklegastur til að verða varaforsetaefni Johns McCains, forsetaframbjóðanda flokksins.
Þrálátur orðrómur er innan flokksins um að Romney, sem var meðal þeirra sem sóttust eftir útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokksins, sé efstur á listanum yfir þá sem helst koma til greina sem varaforsetaefni, og helstu ráðgjafar flokksins segja hann mjög vænlegan kost.
Ein helsta ástæðan fyrir þessu er sögð vera, að Romney eigi auðvelt með að afla mikils fjár á stuttum tíma vegna tengsla sinna við fyrrverandi samstarfsmenn í viðskiptalífinu og mormónakirkjuna.
Fréttavefurinn Politico hefur eftir heimildamönnum að þeir telji að Romney gæti aflað fimmtíu milljóna dollara á tveim mánuðum.
Ennfremur er haft eftir fólki sem tekið hefur þátt í leit McCains að varaforsetaefni að Romney þyki vænlegur kostur vegna þess að upp á hann sé ekkert að klaga, og fjölmiðlar hafi lagt blessun sína yfir hann.
Þá sé útlit hans og framkoma sæmandi forseta, og yrði hann því öflugur í kosningabaráttunni.
Fjölskylda hans eigi rætur í Michigan, en þar bar frambjóðandi demókrata sigur úr býtum í síðustu forsetakosningum.
Eini gallinn sé sá, að McCain sé sjálfur ekkert of ánægður með Romney. Segja heimildamenn að McCain muni fremur velja sér meðframbjóðanda á grundvelli leiðtogahæfileika en fjáröflunargetu.