Svíar halda áfram mótmælum gegn hlerunarlögum sem sænska þingið samþykkti fyrir tveim vikum síðan. Christina Green, talsmaður þingsins, segir þingmenn hafa fengið 1,1 milljón tölvupósta eftir að Expressen dagblaðið hóf herferð á vefnum gegn frumvarpinu í gær. Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var af fyrirtækinu Sifo í síðustu viku, eru 47% Svía á móti hlerunarlögunum og 36% fylgjandi.
Lögin gefa leyniþjónustu Svía heimild án dómsúrskurðar til þess að skanna öll símtöl, tölvupósta, og föx sem koma frá erlendum ríkjum.
Lögin voru samþykkt á þinginu með naumum meirihluta, en 142 voru fylgjandi og 138 á móti. Lögunum hefur verið mótmælt stöðugt frá því þau voru samþykkt. Gagnrýnendur segja lögin ganga á persónufrelsi og mannréttindi, en stuðningsmenn laganna segja þau nauðsynleg til þess að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkum.