Talsmaður Baracks Obama, forsetaefnis bandarískra demókrata, hefur greint frá því að Obama og Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, hafi rætt saman í tuttugu mínútur í síma í gær og átt stórkostlegt samtal. Mun það vera fyrsta samtal þeirra frá því Hillary Rodham Clinton lýsti sig sigraða í baráttu sinni fyrir því að verða forsetaefni demókrata. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Talsmaðurinn Bill Burton segir Obama hafa hringt í Clinton og að það sé honum mikill heiður að njóta stuðnings hans. „Hann hefur alltaf litið á Bill Clinton sem einn helsta leiðtoga þjóðarinnar og einn mesta hugsuð hennar og hann hlakkar til að fá hann til liðs við kosningabaráttu sína og þiggja ráðleggingar hans," sagði Burton.
Bill Clinton var staddur í Evrópu er Hillary og Obama héldu sameiginlegan kosningafund á föstudag en það var í fyrsta skipti sem þau komu fram saman frá því Clinton dró sig í hlé.