Leiðtogar Afríkusambandsríkja hvetja til þess að andstæðar pólitískar fylkingar í Simbabve myndi þjóðstjórn til þess að leysa stjórnarkreppu sem hefur myndast í landinu eftir seinni umferð forsetakosninga. Robert Mugabe, forseti Simbabve, og Morgan Tsvangarai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar eru hvattir til þess að hefja viðræður sem munu koma á friði og stöðugleika í landinu.
Leiðtogafundur Afríkuríkja hefur staðið yfir síðastliðna tvo daga í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi, og hefur ástandið í Simbabve varpað skugga á fundinn. Að sögn Hossan Zaki, talsmanns utanríkisráðuneytis Egypta mótmælti Mugabe, sem var viðstaddur fundinn, ekki samþykkt leiðtoganna. Zaki segir, Mugabe hafa sagt að viðræður stæðu nú þegar yfir við stjórnarandstöðuflokkinn MDC.
Á fréttavef Reuters kemur fram að stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar hafi orðið fyrir alvarlegum líkamsárásum eftir að hafa mótmælt landtöku ríkisstjórnarinnar. Allt að fimmtíu manns réðust á þrjá meðlimi hvítrar fjölskyldu og starfsmenn þeirra á bóndabæ í Simbabve, og voru þau flutt á sjúkrahús með alvarlega áverka. Þá kemur fram að þúsundir manna hafi verið drepnir og fregnir borist af hundruð líkamsárása.
Erlend ríki hafa fordæmt aðgerðir Mugabes í Simbabve, og viðurkenna ekki úrslit seinni umferðar forsetakosninga þar sem Mugabe fór með sigur eftir að Tsvangarai dró sig í hlé. Forsetar Senegal, og Nígeríu segja úrslitin ekki endurspegla vilja almennings í Simbabve, að því er fram kemur á fréttavef BBC.