Fanginn Mark Dean Schwab verður tekinn af lífi í Flórída í dag, sá fyrsti eftir að starfsreglum um banvænar sprautur var breytt. Schwab hefur hinsvegar beðið yfirvöld um frestun þar sem hann segir að aðferðin geti valdið miklum kvölum.
Starfsreglurnar voru teknar til endurskoðunar eftir að aftaka misheppnaðist í Flórída í desember 2006. Nálarnar fóru í gegnum æðar og inn í vöðva fangans og mynduðust sár á höndum hans vegna þess. Tók það fangann 34 mínútur að deyja, sem er yfir tvöfalt lengri tími en eðlilegt þykir, og gretti hann sig reglulega og spurði hvað væri eiginlega að gerast.
Samkvæmt breyttu reglunum á fangelsisstjóri að tryggja að fanginn sé meðvitundarlaus eftir fyrstu sprautuna. Að því loknu verður hann sprautaður með vöðvalamandi efni og því næst með efni sem stöðvar hjartað.
Prófanir sýna hins vegar að 30% líkur eru á því að nýja aðferðin mistakist. Ólíklegt þykir að beiðni Schwab um frestun verði samþykkt þar sem dómstólar hafa áður hafnað beiðnum hans. Scwab var dæmdur til dauða eftir að hafa myrt 11 ára dreng árið 1991.